18.9.2008 | 14:35
Þetta kemur ykkur við, annað ekki!
Fréttatími Ríkissjónvarpsins mánudagskvöldið 15. september var um margt mjög athyglisverður og innihaldsríkur. Þar var í löngu máli sagt frá alvarlegri stöðu á fjármálamörkuðum, bæði hér heima og erlendis og fullyrt að útlitið hefði ekki verið jafnsvart í um 60 ár. Það eru merk tíðindi. Þá var í fréttatímanum sagt frá alvarlegri stöðu Eimskipa, vandræðum fólks vegna gjaldþrots XL, hugsanlegri virkjun í Mývatnssveit, líkamsárás í Þorlákshöfn, hugmyndum um kafbát í Eyjafirði, stjórnarslitum í Færeyjum og svona mætti lengi telja. Svo kom frétt um Breiðholtsdaga. Þeir eru nú haldnir í 6. sinn. Og þá allt í einu birtist texti á skjánum um leið og þulur las, rétt eins og þyrfti að þýða á íslensku það sem hann segði. Hvað var nú á seyði? Þetta hafði ekki gerst áður í þessum fréttatíma. Og skýringin kom í lok inngangs fréttaþular. Jú, heyrnarlaus myndlistarmaður sýnir verk sín á Breiðholtsdögum. Fréttastofa Ríkissjónvarpsins ákvað sem sagt að af því að heyrnarlaus maður er hluti af dagskrá Breiðholtsdaga þá skuli sú frétt textuð, svo heyrnarlausir geti nú horft á þá frétt og skilið um hvað sú frétt snýst.
Þessi verknaður fréttastofu Ríkissjónvarpsins lýsir að mínu viti botnlausri fyrirlitningu á heyrnarlausu fólki. Hvað er í raun verið að segja heyrnarlausu fólki? Jú, eitthvað á þessa leið: Ykkur kemur lítt við hvernig heimsskútan vaggar og veltur frá degi til dags, en af því að í þessari frétt er fjallað um einn af ykkur, þá skulum við texta hana svo þið getið nú fylgst með ykkar fólki. Annað í þessum fréttatíma kom heyrnarlausu fólki ekki við, enda var ekkert fjallað um heyrnarlaust fólk í öðrum fréttum kvöldsins.
Það verður gleðilegur dagur í lífi heyrnarlauss fólks þegar stjórnendur Ríkissjónvarpsins uppgötva að heyrnarlaust fólk er upp til hópa jafn vel gefið og annað fólk og þegar þeir uppgötva að heyrnarlaust fólk hefur jafnmikinn áhuga á samfélagi sínu og annað fólk. Vegna þess að þá hætta þessir stjórnendur kannski að texta bara fréttir af Breiðholtsdögum og gefa þessum Íslendingum kost á að fylgjast með öllum fréttum í sjónvarpi allrar þjóðarinnar (ekki bara hinna heyrandi).
Höfundur er faðir heyrnarlauss manns sem hefur áhuga á samfélagi sínu.
Þessi grein mín birtist í Morgunblaðinu 18. september.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.6.2008 | 10:44
Guðbjörg Hildur slettir úr sálarkirnunni
Sú athyglisverða kona Guðbjörg Hildur Kolbeins sér ástæðu til að blogga um þátt sem ég sé um á Rás 1 Ríkisútvarpsins og ber heitið Dr. Rúv. Hún hefur pistilinn með því að opinbera þekkingarleysi sitt á skipulagi þáttanna og segir að hlutirnir virðist vera svona og svona. Þegar fólk ræðst fram með einarðar skoðanir á mönnum og málefnum, sem geta orðið til að rýra trúverðugleika fólks, er lágmarkskrafa að það kynni sér hlutina til hlítar.
Hvað um það, Guðbjörg Hildur segir þessa þætti vera misjafna, stundum séu þeir ágætir og fræðandi þegar í hlut eigi dagskrárgerðarfólk með reynslu, en stundum sé reynsluleysi umsjónarfólks nánast óþolandi. Það blasir við mér að Guðbjörg Hildur telur þætti mína fremur ágæta og fræðandi en hitt, þar sem ég er án nokkurs vafa í flokknum "dagskrárgerðarfólk með reynslu". Fyrir það hrós ber að þakka.
En að þessum inngangi Guðbjargar Hildar loknum hefst gagnrýni hennar á síðasta þátt minn. Þar ræddi ég við Margréti Lilju Guðmundsdóttur, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík um nýja rannsókn á högum framhaldsskólanema, sem Rannsóknir og greining framkvæmdu í samráði við menntamálaráðuneytið. Þetta finnst Guðbjörgu Hildi tortryggilegt og gefur í skyn að þarna hafi ég misnotað stöðu mína, þar sem ég er markaðsstjóri Háskólans í Reykjavík. Hún spyr hvort það sé viðeigandi að ég noti þátt í Ríkisútvarpinu til að fjalla um rannsóknir sem framkvæmdar voru af starfsfólki HR.
Þessu er til að svara að þessi gríðarlega viðamikla rannsókn var kynnt þann 7. maí. Flestallir fjölmiðlar landsins gerðu henni góð skil.
Þáttur minn, Dr. Rúv, sem er á mánudögum, fjallar um lýðheilsumál og heilbrigðismál. Mér fannst því full ástæða til að gera þessari merku rannsókn skil. Stöðu minnar vegna beið ég þó með að gera það þar til umsóknarfrestur í Háskólann í Reykjavík væri liðinn, en hann rann út þann 30. maí sl., og ég fjallaði um þessa merku rannsókn í þætti mínum þ. 2. júní sl., eða tæpum mánuði eftir að skýrslan var gefin út. Það má því fremur álykta sem svo að Háskólinn í Reykjavík hafi tapað á því en grætt að ég sá um þennan þátt, því líklegt má telja að hvaða annar umsjónarmaður slíks þáttar hefði kosið að gera þessari rannsókn skil í slíkum þætti sem fyrst eftir að niðurstöður hennar voru kynntar. Ég reyndi því sérstaklega að gæta þess að þarna væri ekki hægt að álasa mér fyrir að misnota aðstöðu mína.
Ég vil einnig vekja athygli Guðbjargar Hildar á því að þann 21. apríl sl. fjallaði ég í þættinum um hugsanleg tengsl á milli líkamsræktar og tíðahvarfaeinkenna, en það var viðfangsefni tveggja hjúkrunarfræðinga við Háskóla Íslands í lokaritgerð þeirra til BS-prófs. Ég tók það að sjálfsögðu skilmerkilega fram í þættinum hver tengslin væru við Háskóla Íslands, og þó var þetta á miðju umsóknartímabili háskólanna. Átti ég þá að hugsa um "hina" vinnuna mína, gera mér grein fyrir samkeppni háskólanna og fresta þessari umfjöllun þar til í sumar? Ég tel það ekki, efnið var gott og athyglisvert og átti umfjöllun skilið. Það er það eina sem mér ber í raun að hugsa um þegar ég vel umfjöllunarefni í þáttinn.
Stjórnendur Ríkisútvarpsins vissu mætavel þegar þeir leituðu til mín um að stjórna þessum þætti um lýðheilsumál og heilbrigðismál að ég væri markaðsstjóri Háskólans í Reykjavík. Þeir hafa ennfremur vafalítið vitað af því að við skólann er starfrækt lýðheilsudeild þar sem lýðheilsa Íslendinga er viðfangsefnið, og því viðbúið að þar væri oft að finna verðug viðfangsefni í þætti sem í senn á að vera upplýsandi og fræðandi. Engu að síður treystu þeir mér fyrir verkinu. Ég hef enda aldrei fengið ákúrur fyrr, fyrir að draga taum eins fremur en annars, enda held ég að HR hafi síður en svo grætt á því að ég stjórni þessum þætti. Miðað við það rannsóknarstarf sem fram fer á vegum lýðheilsudeildar Háskólans í Reykjavík má fremur ætla að hann hefði oftar fengið inni í þætti um lýðheilsumál ef einhver annar hefði séð um þáttagerðina en markaðsstjóri HR.
Öllum dylgjum Guðbjargar Hildar er því alfarið vísað til föðurhúsanna. Í þessu tilviki kemur upp orðatiltækið "margur heldur mig sig", eða telur Guðbjörg Hildur sig betur innrætta en þeir sem hún gagnrýnir af dæmigerðri fávísi þess sem ekki kynnir sér málin áður en hann ræðst á takkaborðið?
Í þokkabót gefur hún fólki ekki kost á því að bera hönd fyrir höfuð sér á bloggsvæði sínu. Það er lokað fyrir athugasemdir, þannig að áburður hennar um óheiðarleika minn stendur þar óhaggaður án þess að ég fái rönd við reist. Það er í hæsta máta ósæmilegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.4.2008 | 23:47
(Ó)trúverðugleiki fréttamanna (og annarra)
Í kjölfar þess að Lára Ómarsdóttir, fyrrverandi vinnufélagi minn, sagði upp störfum í dag, vegna ummæla sem hún lét falla i samtali við samstarfsmann sinn, sem honum einum voru ætluð, hef ég hugsað eitt og annað í sambandi við heiðarleika og trúverðugleika fréttamanna.
Svo það fari ekkert á milli mála, áður en lengra er haldið, þá tel ég ákvörðun Láru hárrétta. Svo hárrétta, að ég sagði við góða vini mína og fyrrverandi kollega í morgun, að hún hefði einungis einn kost, og það væri að segja upp störfum. Síðan hef ég velt vöngum yfir því af hverju ég og fleiri úr stétt fjölmiðlamanna, erum margir sammála um að þetta hafi verið rétt ákvörðun og í raun það eina sem hægt var að gera. Jú, af því að trúverðugleiki fréttastofu var í húfi. Og mikið rétt, trúverðugleiki fréttastofu Stöðvar 2 var í húfi, og það er afskaplega mikilvægt. Þessir atburðir reka huga minn ósjálfrátt aftur til haustsins 2005. Þá flutti félagi minn, Róbert Marshall, frétt þar sem hann fór með rangt mál, í stuttu máli hann leit rangt á klukkuna, eða öllu heldur, hann leit alls ekki á klukkuna þegar hann skoðaði atburðarás þess sem olli því að Íslendingar skráðu sig á lista hinna staðföstu þjóða. Það kostaði hann starfið. Ég var vaktstjóri frétta þann dag og í kjölfarið var heimtað meira blóð, blóð fréttastjórans, Páls Magnússonar og blóð vaktstjórans, blóð mitt. Þar fóru harðast fram kollegar okkar, einn og annar fréttamaður annarra miðla (sem sumir hverjir eru ekki jafnblóðþyrstir þegar stjórnmálamenn gera stykkin sín langt upp á herðablöð). Gott og vel, málið kostaði einungis blóð Róberts, og þóttu mörgum nóg. Sjálfum þótti mér ákvörðun Róberts rétt, rétt eins og mér þykir ákvörðun Láru rétt í dag. En af hverju taka fréttamenn starf sitt svona alvarlega, og eftir því sem ég fæ best séð, mun alvarlegar en margir aðrir sem mættu taka sér þessar ákvarðanir þessa heiðursfólks sér til fyrirmyndar? Jú, af því að þau setja heiðarleika og trúverðugleika þess sem þau vinna fyrir hærra en sjálft sig. Það er bara svo einfalt.
Ég fullyrði hér og nú að ýmsir stjórnmálamenn hafa á undanförnum misserum, gert sig seka um mun verri glæpi en Lára. Það hreyfir þá ekki. Þeim virðist slétt sama þó traust fólks á þeim stofnunum sem þeir eru fulltrúar fyrir hrapi í skoðanakönnunum, þeir eru fulltrúar fólksins og verða dæmdir í kosningum er ætíð viðkvæðið. Ég greini ekki þarna mikla virðingu fyrir vinnustað þeirra, vinnufélögum, almenningi eða því sem þeir standa fyrir, einungis því að þeir geti hangið á sínu. Og almenningur virðist ætíð vera gullfiskur.
Nú ætla ég ekki, eins og áður er sagt, að verja ummæli Láru, sem sögð eru í hita leiksins og þau eru alls ekki til þess fallin að vera varin. Samt er ég handviss um það að ef svipuð atburðarás hefði átt sér stað á vettvangi stjórnmála, þá hefðu flokksfélagar þess sem hlaupið hefði á sig, skipað sér í fylkingar til að verja svipaða gjörð eða svipuð ummæli.
Ég þekki hins vegar mýmörg dæmi þess, persónulega, og af sögum annarra fréttamanna, að oft höfum við fréttamenn tekið viðtöl við stjórnmálamenn, þar sem þeir segja eitt og annað, kannski í hita leiksins, kannski vegna reynsluleysis og kannski vegna einhvers alls annars, þar sem þeir biðja fréttamenn um að eyða viðkomandi svar og að fá að byrja upp á nýtt. Alltaf, og ég fullyrði, alltaf, verða þeir fréttamenn sem ég þekki til, við þessum óskum. Af hverju? Jú, því að fréttamenn hafa ekki að leiðarljósi að negla menn, eða koma mönnum í bobba vegna óheppilegra ummæla. Þeir eru að leita frétta eða upplýsinga, og í hvert einasta skipti sem stjórnmálamaður hefur orðað hluti óheppilega og séð að sér, hef ég, og ég fullyrði, flestir fréttamenn, verið manna fúsastir til að taka viðtalið/svarið við þá aftur.
Þess vegna spyr ég: Af hverju eru stjórnmálamenn ekki jafn kröfuharðir á sjáfa sig og fréttamenn?
Og af hverju er almenningur ekki jafn kröfuharður á störf stjórnmálamanna og fréttamanna? Þeir eru jú þrátt fyrir allt valdameiri og bera meiri ábyrgð..... eða hvað?Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.1.2008 | 01:05
Ég bara skil þetta alls ekki.......
Það er fjasað (og ég meina fjasað miðað við hvernig fjallað er um hlutina) um að einhver krá í Reykjavík verði beitt refsiaðgerðum fyrir að leyfa viðskiptavinum sínum að reykja í lokuðu rými. Á sama tíma er það vel kynnt fyrir öllum farþegum sem eru á leið úr landinu í gegnum Leifsstöð hvar reykrými sé til staðar í húsinu. Hver er nákvæmlega munurinn á Íslendingi á leið út í flugvél, með kaffibolla eða bjórflösku í hönd, og þessum sama Íslendingi, þegar hann er staddur á knæpu í miðborginni, með sama drykk í hönd? Af hverju má hann reykja við einar aðstæður, en ekki aðrar? Getur einhver svarað mér því? Og svo er látið að því liggja sums staðar að alþingismenn hafi reykhol í sínu vinnuhúsi. Er það satt? Og vont er, ef satt er? Erum við ekki öll jöfn, eða hvað, full og ófull? Verður þetta ekki að vera á hreinu, eða hvers konar samfélagi búum við eiginlega í? Því sem við eigum skilið, á endanum trúi ég......
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2008 | 14:02
Okkur vantar upplýsingar!
Dómsmálaráðherra skilar rökstuðningi fyrir ráðningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2008 | 02:09
Dónaskapur Jóns Viðars / Hreinskilni Jóns Viðars
Ég tók eftir því í kvöld að formaður Blaðamannafélagsins harmaði þá ákvörðun leikhússtjóra Borgarleikhússins að strika Jón Viðar Jónsson, leikhúsgagnrýnanda DV, út af boðslista félagsins á frumsýningar leikhússins. Ég er ósammála þessari skoðun formannsins.... og þó.... og þó ekki.
Að sjálfsögðu er það fáránlegt af leikhússtjóra hvaða leikhúss sem er hér á landi að frábiðja sér gagnrýni, eða að strika neikvæða gagnrýnendur út af frumsýningarlista sínum. Hins vegar benti leikhússstjóri Borgarleikhússins á það í viðtali í Ríkissjónvarpinu að viðkomandi gagnrýnandi hefði verið dónalegur í garð leikhússgesta, og að það liði hann engum. Þá spyr ég: Hvað kemur honum það við, hvað frumsýningargestir (eða aðrir gestir) skrifa um gesti leikhússins? Hann er ekki sjáfskipaður, hvað þá skipaður, varðhundur um orðstír, klæðaburð eða aðra hegðan gesta sinna. Mér má finnast það sem mér sýnist um gesti hans, og Jóni Viðari má það líka. Auk þess þá getur slíkur dómur eða umfjöllun Jóns Viðars um viðbrögð frumsýningargesta við tilteknu leikhúsverki verið mjög í ætt við ævintýrið um "Nýju fötin keisarans", sem sé það að sama hvað sé sett fram á leiksviði á frumsýningarkvöldi þá klappa mörgæsirnar og síðkjólarnir fyrir hverju sem er.
Guðjóni kemur það bara ekki við, hans eina hlutverk er að framfæra sýningar á svið, og láta mig, Jón Viðar og alla aðra sem lyst hafa á að skoða þessar sýningar, hafa skoðun á þeim, hvort sem sú skoðun er sett fram í ritdómi í blaði, skoðun á bloggi, eða umtali á kaffistofu á meðal vinnufélaga.
Guðjón Pedersen er hins vegar, án alls vafa, að skjóta sig í fótinn, og jafnvel báða fætur, með þessari ákvörðun sinni. Auðvitað greiðir sá fjölmiðill, sem greiðir Jóni Viðari einhverja tíuþúsund kalla fyrir að hafa skoðun á leiklist, miða fyrir Jón Viðar á leiksýningu. Eini munurinn verður sá að Jón Viðar situr ekki frumsýningu, en bara einhverja næstu sýningu og allir bíða með öndina í hálsinum eftir hans dómi (les: úrskurði). Þetta er kjánaleg ákvörðun í alla staði, því hún kallar á athygli og eftirvæntingu eftir því hvað Jóni Viðari finnst um tiltekna sýningu.
Sjálfum finnst mér afskaplega skemmtilegt að lesa dóma Jóns Viðars, maðurinn skrifar afar fallegt og kjarnyrt mál og er tvímælalaust einn af betri pennum landsins, auk þess sem hann er einn fárra, í lognmollu íslenskra skoðana, sem þorir að hafa skoðun. Ég er ekki alltaf sammála honum, sem betur fer, og vel ekki leiksýningar eftir því hvað Jóni Viðari finnst. Ég skoða dóma Páls Baldvins og Maríu Kristjánsdóttur (sem þykja báðir frábærir gagnrýnendur) og margra annarra og svo hef ég (stundum) sjálfstæða skoðun á því hvað mig langar til að sjá í leikhúsi :)
Allt í allt, þá er ég eiginlega sammála vinkonu minni, formanni BÍ um að þetta sé leitt, en þetta hindrar ekki rit- eða prentfrelsi nokkurs manns, eini munurinn er sá að fjölmiðillinn þarf að borga fyrir miðann og kemst ekki á frumsýningu. Það er bara allt í lagi þó fjölmiðlar greði fyrir þessa miða. En leikhúsið tapar og enginn annar. Og hana nú!
P.S. Það er hins vegar óþolandi að ekki skuli takast að halda úti góðum og lifandi og gagnrýnym þætti í íslensku sjónvarpi um kvikmyndasýningar á Íslandi, vegna viðkvæmni þeirra (tveggja) sem reka kvikmyndahús hér á landi. Allar tilraunir í þá átt enda í lofgjörð og trailerum um væntanlegar myndir, á meðan sambærilegir gagnrýnir þættir hjá vinum okkar á Norðurlöndum eru frábær þáttagerð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.7.2007 | 00:41
Og þá að íþróttum...
Uppáhaldsdagskrárliðurinn minn í íslensku útvarpi tekur u.þ.b. eina og hálfa mínútu í flutningi. Ég hef hlustað á hann tilviljunarkennt undanfarinn áratug, en er farinn að hlusta á hann skipulega á síðustu mánuðum.
Ég skila dóttur minni á leikskólann rétt fyrir kl. 9 og á leið til vinnu heyri ég Lindu Blöndal segja mér kl. 9 hvað hafi helst verið í fréttum kl. 8. Fín samantekt. Svo kemur feita rúsínan í feitum pylsuendanum þegar hún segir: "Og þá að íþróttum. Bjarni Felixson" (eða eitthvað í þá áttina).
Nema hvað... Rauða ljónið segir mér (og öðrum hlustendum) eiginlega aldrei fréttir af íþróttum. Hann fer í það að þylja upp hvað hinn og þessi smájóninn er að gera í frístundum sínum í útlöndum.
Dæmi: "Agnar Smári Bjarnason spilaði í 4 mínútur í leik Brabra og Riprap í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Brabra vann 4-0 og er í 29. sæti í deildinni. Jón Hjalti Einarsson sat á varamannabekknum í gær þegar Hipsumhaps spilaði við Gummersbach í þýsku úrvalsdeildinni í bowling í gær. Jón Hjalti er að ná sér eftir meiðsli og verður spennandi að sjá hvort hann verður í leikmannahópnum í næstu viku. Rússkíkaramba sigraði Dýnamó í rússnesku úrvalsdeildinni í körfubolta í gær með 111-85. Bjarni Stefánsson, í liði Rússkíkaramba, spilaði með í 13 mínútur og skoraði 5 stig. Brasilía varð heimsmeistari í knattspyrnu í gær þegar liðið sigraði Þjóðverja með tveimur mörku gegn einu."
Hvað er þetta eiginlega???? Þetta eru í öllu falli ekki íþróttafréttir. Þetta eru fréttir af Íslendingum sem eru að vinna í útlöndum. Eitt er að segja frá Eiði Smára og öðrum alvöru íþróttastjörnum (alveg eins og við segjum FRÉTTIR af Björk og fleirum sem eru í alvöru fréttir). Ef þetta heita íþróttafréttir, þá er alveg gráupplagt að hafa daglega læknafréttir og bankamannafréttir á Rúv. Þær gætu t.d. hljómað svona:
"Bjartur Máni Brynjarsson, skurðlæknir við Karolinska sjúkrahúsið, fjarlægði 4 botnlanga á vaktinni í gær og tók síðan þátt í hjartaþræðingu. Allir sjúklingarnir eru við góða heilsu. Eiríkur Ingason var kallaður út við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn í gær þegar komið var með mann í hjartastoppi um kvöldmatarleytið. Eiríkur blés lífi í manninn og þótti standa sig frábærlega. Egill Egilsson, heilaskurðlæknir við New York City Hospital, kom ekki við sögu þegar skipt var um heila í stærðfræðingi við Stanford háskóla í gær."
Í alvöru, fréttir Bjarna Fel klukkan 3 mínútur yfir 9 á morgnana eru ekki íþróttafréttir, þær eru aðallega fréttir af Íslendingum sem eru á launum við að vera á stuttbuxum í útlöndum. Ég skora á ykkur, hlustið á þetta, þetta er stórkostlegt, og aðallega stórkostlegur þjóðrembingur af verstu gerð.
En ég reyni að missa ekki af þessu...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Jóhann Hlíðar Harðarson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar