(Ó)trúverðugleiki fréttamanna (og annarra)

Í kjölfar þess að Lára Ómarsdóttir, fyrrverandi vinnufélagi minn, sagði upp störfum í dag, vegna ummæla sem hún lét falla i samtali við samstarfsmann sinn, sem honum einum voru ætluð, hef ég hugsað eitt og annað í sambandi við heiðarleika og trúverðugleika fréttamanna.

 

Svo það fari ekkert á milli mála, áður en lengra er haldið, þá tel ég ákvörðun Láru hárrétta. Svo hárrétta, að ég sagði við góða vini mína og fyrrverandi kollega í morgun, að hún hefði einungis einn kost, og það væri að segja upp störfum. Síðan hef ég velt vöngum yfir því af hverju ég og fleiri úr stétt fjölmiðlamanna, erum margir sammála um að þetta hafi verið rétt ákvörðun og í raun það eina sem hægt var að gera. Jú, af því að trúverðugleiki fréttastofu var í húfi. Og mikið rétt, trúverðugleiki fréttastofu Stöðvar 2 var í húfi, og það er afskaplega mikilvægt. Þessir atburðir reka huga minn ósjálfrátt aftur til haustsins 2005. Þá flutti félagi minn, Róbert Marshall, frétt þar sem hann fór með rangt mál, í stuttu máli hann leit rangt á klukkuna, eða öllu heldur, hann leit alls ekki á klukkuna þegar hann skoðaði atburðarás þess sem olli því að Íslendingar skráðu sig á lista hinna staðföstu þjóða. Það kostaði hann starfið. Ég var vaktstjóri frétta þann dag og í kjölfarið var heimtað meira blóð, blóð fréttastjórans, Páls Magnússonar og blóð vaktstjórans, blóð mitt. Þar fóru harðast fram kollegar okkar, einn og annar fréttamaður annarra miðla (sem sumir hverjir eru ekki jafnblóðþyrstir þegar stjórnmálamenn gera stykkin sín langt upp á herðablöð). Gott og vel, málið kostaði einungis blóð Róberts, og þóttu mörgum nóg. Sjálfum þótti mér ákvörðun Róberts rétt, rétt eins og mér þykir ákvörðun Láru rétt í dag. En af hverju taka fréttamenn starf sitt svona alvarlega, og eftir því sem ég fæ best séð, mun alvarlegar en margir aðrir sem mættu taka sér þessar ákvarðanir þessa heiðursfólks sér til fyrirmyndar? Jú, af því að þau setja heiðarleika og trúverðugleika þess sem þau vinna fyrir hærra en sjálft sig. Það er bara svo einfalt.

 

Ég fullyrði hér og nú að ýmsir stjórnmálamenn hafa á undanförnum misserum, gert sig seka um mun verri „glæpi“ en Lára. Það hreyfir þá ekki. Þeim virðist slétt sama þó traust fólks á þeim stofnunum sem þeir eru fulltrúar fyrir hrapi í skoðanakönnunum, „þeir eru fulltrúar fólksins og verða dæmdir í kosningum“ er ætíð viðkvæðið. Ég greini ekki þarna mikla virðingu fyrir vinnustað þeirra, vinnufélögum, almenningi eða því sem þeir standa fyrir, einungis því að þeir geti hangið á sínu. Og almenningur virðist ætíð vera gullfiskur.

 

Nú ætla ég ekki, eins og áður er sagt, að verja ummæli Láru, sem sögð eru í hita leiksins og þau eru alls ekki til þess fallin að vera varin. Samt er ég handviss um það að ef svipuð atburðarás hefði átt sér stað á vettvangi stjórnmála, þá hefðu flokksfélagar þess sem hlaupið hefði á sig, skipað sér í fylkingar til að verja svipaða gjörð eða svipuð ummæli.

 

Ég þekki hins vegar mýmörg dæmi þess, persónulega, og af sögum annarra fréttamanna, að oft höfum við fréttamenn tekið viðtöl við stjórnmálamenn, þar sem þeir segja eitt og annað, kannski í hita leiksins, kannski vegna reynsluleysis og kannski vegna einhvers alls annars, þar sem þeir biðja fréttamenn um að eyða viðkomandi svar og að fá að byrja upp á nýtt. Alltaf, og ég fullyrði, alltaf, verða þeir fréttamenn sem ég þekki til, við þessum óskum. Af hverju? Jú, því að fréttamenn hafa ekki að leiðarljósi að „negla“ menn, eða koma mönnum í bobba vegna óheppilegra ummæla. Þeir eru að leita frétta eða upplýsinga, og í hvert einasta skipti sem stjórnmálamaður hefur orðað hluti óheppilega og séð að sér, hef ég, og ég fullyrði, flestir fréttamenn, verið manna fúsastir til að taka viðtalið/svarið við þá aftur.

Þess vegna spyr ég: Af hverju eru stjórnmálamenn ekki jafn kröfuharðir á sjáfa sig og fréttamenn?

 Og af hverju er almenningur ekki jafn kröfuharður á störf stjórnmálamanna og fréttamanna? Þeir eru jú þrátt fyrir allt valdameiri og bera meiri ábyrgð..... eða hvað?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisvert skrifað hjá þér. En hver veit nema að með þessu sé farið að þrengja að stjórnmálafólki og þeim opinberu stofnunum, sem þó eiga að vinna samkvæmt lögum og reglum til hagkvæmis fyrir þjóðarþegna.

Þó svo að þessi tímamörk með afsögn Láru séu erfið fyrir marga samvinnufélaga hennar, þá er með þessu sýnd ábyrgð og mætti þá vonandi ætla að svona leiði til að ábyrgð stjórnmálafólks verði gerð greinilegri á allann hátt. Spilling stjórnmála t.d. í sambandi við ráðningu héraðsdómara, sölu á þjóðareignum fyrir slikk og stjórnsýslulög varla virt, þá er það eins og greinahöfundur skýrir frá "margir búnir að gera upp á herðar sér" Það sem greinahöfundur skrifar um að gagnrýni hafi enginn áhrif á stjórnmálamenn: "Það hreyfir þá ekki." og "Þeim virðist slétt sama þó traust fólks á þeim stofnunum sem þeir eru fulltrúar fyrir hrapi í skopanakönnunum," Þetta er eiginlega alvarlegasta hótið á móti lýðræði. Mætti ákvörðun fjölmiðla að standast ábyrgð leiða til að auka kröfur á að opinbera eins mikið af upplýsingum um þá spillingu sem ræður á torgi stjórnmála. 

ee (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 09:15

2 identicon

Þakka ágæt skrif.

Mér finnst alveg sjálfsagt að Lára Ómarsdóttir, segi sig frá starfi sínu. Siðareglur Blaðamannafélags Íslands, kveða skýrt á um að verkefni frétta- og blaðamanna sé að segja fréttir á hlutlausan hátt. Það að endurtaka ákveðin atburð sem viðkomandi fréttamaður einhverra hluta vegna missti af, er ekki hlutleysi og ekki heldur sannur fréttaflutningur - svo einfalt er það. Hins vegar er Lára Ómarsdóttir áreiðanlega hin sómakærasta kona, en það breytir því ekki að hún er að búa til frétt í nafni fréttastofu - í þessu tilfelli Fréttastofu Stöðvar 2.

Þú spyrðir saman starfssvið stjórnmálamanna og fréttamanna? Eru það sambærileg störf? Þú spyrð af hverju almenningur sé ekki jafn kröfuharður á störf stjórnmálamanna og fréttamanna? Þeir séu jú þrátt fyrir allt valdameiri og beri meiri ábyrgð .... eða hvað?

Í hnotskurn Jóhann Hlíðar. Störf stjórnmálamanna annars vegar og störf fréttamanna hins vegar eru ekki á nokkurn hátt sambærileg! Fyrir það fyrsta eru stjórnmálamenn kosnir til starfa í lýðræðislegum kosningum -Frétta- og blaðamenn eru ráðnirtil starfa hjá ríki eða einkaaðilum eins og hverjir aðrir launþegar.

Það er síðan allt annar handleggur hvernig/eða hvort stjórnmálamenn axli ábyrgð eða ekki.

Launþegar sem gera stór mistök í starfi geta víst alltaf átt á hættu að þurfa að láta af störfum við þær aðstæður.

Hins vegar er mikil þörf á því að frétta- og blaðamenn, ritstjórnir og aðrir þeir aðilar sem koma að fréttaflutningi, taki sig verulegu taki og kynni sér mál til hlítar og segi frá sem flestum hliðum hvers máls.

Almenningur á Íslandi er oft afar þreyttur á sjálflægni starfsmanna fjölmiðlanna - sbr. mál Láru Ómarsdóttur versus uppsagnir 100 hjúkrunarfræðinga.

Alma Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jóhann Hlíðar Harðarson

Höfundur

Jóhann Hlíðar Harðarson
Jóhann Hlíðar Harðarson
Höfundur hefur áhuga á öllu og engu og gæti leikandi gengist við nafninu kverúlant, þó hann sætti sig frekar við að vera samfélagsrýnir.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband