Guðbjörg Hildur slettir úr sálarkirnunni

Sú athyglisverða kona Guðbjörg Hildur Kolbeins sér ástæðu til að blogga um þátt sem ég sé um á Rás 1 Ríkisútvarpsins og ber heitið Dr. Rúv. Hún hefur pistilinn með því að opinbera þekkingarleysi sitt á skipulagi þáttanna og segir að hlutirnir virðist vera svona og svona. Þegar fólk ræðst fram með einarðar skoðanir á mönnum og málefnum, sem geta orðið til að rýra trúverðugleika fólks, er lágmarkskrafa að það kynni sér hlutina til hlítar.

 

Hvað um það, Guðbjörg Hildur segir þessa þætti vera misjafna, stundum séu þeir ágætir og fræðandi þegar í hlut eigi dagskrárgerðarfólk með reynslu, en stundum sé reynsluleysi umsjónarfólks nánast óþolandi. Það blasir við mér að Guðbjörg Hildur telur þætti mína fremur ágæta og fræðandi en hitt, þar sem ég er án nokkurs vafa í flokknum "dagskrárgerðarfólk með reynslu". Fyrir það hrós ber að þakka.

 

En að þessum inngangi Guðbjargar Hildar loknum hefst gagnrýni hennar á síðasta þátt minn. Þar ræddi ég við Margréti Lilju Guðmundsdóttur, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík um nýja rannsókn á högum framhaldsskólanema, sem Rannsóknir og greining framkvæmdu í samráði við menntamálaráðuneytið. Þetta finnst Guðbjörgu Hildi tortryggilegt og gefur í skyn að þarna hafi ég misnotað stöðu mína, þar sem ég er markaðsstjóri Háskólans í Reykjavík. Hún spyr hvort það sé viðeigandi að ég noti þátt í Ríkisútvarpinu til að fjalla um rannsóknir sem framkvæmdar voru af starfsfólki  HR.

 

Þessu er til að svara að þessi gríðarlega viðamikla rannsókn var kynnt þann 7. maí. Flestallir fjölmiðlar landsins gerðu henni góð skil.

 

Þáttur minn, Dr. Rúv, sem er á mánudögum, fjallar um lýðheilsumál og heilbrigðismál. Mér fannst því full ástæða til að gera þessari merku rannsókn skil. Stöðu minnar vegna beið ég þó með að gera það þar til umsóknarfrestur í Háskólann í Reykjavík væri liðinn, en hann rann út þann 30. maí sl., og ég fjallaði um þessa merku rannsókn í þætti mínum þ. 2. júní sl., eða tæpum mánuði eftir að skýrslan var gefin út. Það má því fremur álykta sem svo að Háskólinn í Reykjavík hafi tapað á því en grætt að ég sá um þennan þátt, því líklegt má telja að hvaða annar umsjónarmaður slíks þáttar hefði kosið að gera þessari rannsókn skil í slíkum þætti sem fyrst eftir að niðurstöður hennar voru kynntar. Ég reyndi því sérstaklega að gæta þess að þarna væri ekki hægt að álasa mér fyrir að misnota aðstöðu mína.

 

Ég vil einnig vekja athygli Guðbjargar Hildar á því að þann 21. apríl sl. fjallaði ég í þættinum um hugsanleg tengsl á milli líkamsræktar og tíðahvarfaeinkenna, en það var viðfangsefni tveggja hjúkrunarfræðinga við Háskóla Íslands í lokaritgerð þeirra til BS-prófs. Ég tók það að sjálfsögðu skilmerkilega fram í þættinum hver tengslin væru við Háskóla Íslands, og þó var þetta á miðju umsóknartímabili háskólanna. Átti ég þá að hugsa um "hina" vinnuna mína, gera mér grein fyrir samkeppni háskólanna og fresta þessari umfjöllun þar til í sumar? Ég tel það ekki, efnið var gott og athyglisvert og átti umfjöllun skilið. Það er það eina sem mér ber í raun að hugsa um þegar ég vel umfjöllunarefni í þáttinn.

 

Stjórnendur Ríkisútvarpsins vissu mætavel þegar þeir leituðu til mín um að stjórna þessum þætti um lýðheilsumál og heilbrigðismál að ég væri markaðsstjóri Háskólans í Reykjavík. Þeir hafa ennfremur vafalítið vitað af því að við skólann er starfrækt lýðheilsudeild þar sem lýðheilsa Íslendinga er viðfangsefnið, og því viðbúið að þar væri oft að finna verðug viðfangsefni í þætti sem í senn á að vera upplýsandi og fræðandi. Engu að síður treystu þeir mér fyrir verkinu. Ég hef enda aldrei fengið ákúrur fyrr, fyrir að draga taum eins fremur en annars, enda held ég að HR hafi síður en svo grætt á því að ég stjórni þessum þætti. Miðað við það rannsóknarstarf sem fram fer á vegum lýðheilsudeildar Háskólans í Reykjavík má fremur ætla að hann hefði oftar fengið inni í þætti um lýðheilsumál ef einhver annar hefði séð um þáttagerðina en markaðsstjóri HR.

 

Öllum dylgjum Guðbjargar Hildar er því alfarið vísað til föðurhúsanna. Í þessu tilviki kemur upp orðatiltækið "margur heldur mig sig", eða telur Guðbjörg Hildur sig betur innrætta en þeir sem hún gagnrýnir af dæmigerðri fávísi þess sem ekki kynnir sér málin áður en hann ræðst á takkaborðið?

 

Í þokkabót gefur hún fólki ekki kost á því að bera hönd fyrir höfuð sér á bloggsvæði sínu. Það er lokað fyrir athugasemdir, þannig að áburður hennar um óheiðarleika minn stendur þar óhaggaður án þess að ég fái rönd við reist. Það er í hæsta máta ósæmilegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessaður vetu ekki að gera mikið úr þessu, þó að öfgakonan Guðbjörg Hildur sé eitthvað að blása, því að ég held að það séu ekki margir sem taka mark á henni.

Stefán (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 11:11

2 Smámynd: Ragnheiður

Ég er hlustandi þáttarins og kann afar vel við hann. Ég ætla að skoða hvað hún segir en ákvað að koma fyrst á framfæri þakklæti fyrir vel unnin og fróðlegan þátt.

Ragnheiður , 4.6.2008 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jóhann Hlíðar Harðarson

Höfundur

Jóhann Hlíðar Harðarson
Jóhann Hlíðar Harðarson
Höfundur hefur áhuga á öllu og engu og gæti leikandi gengist við nafninu kverúlant, þó hann sætti sig frekar við að vera samfélagsrýnir.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband