Þetta kemur ykkur við, annað ekki!

Fréttatími Ríkissjónvarpsins mánudagskvöldið 15. september var um margt mjög athyglisverður og innihaldsríkur. Þar var í löngu máli sagt frá alvarlegri stöðu á fjármálamörkuðum, bæði hér heima og erlendis og fullyrt að útlitið hefði ekki verið jafnsvart í um 60 ár. Það eru merk tíðindi. Þá var í fréttatímanum sagt frá alvarlegri stöðu Eimskipa, vandræðum fólks vegna gjaldþrots XL, hugsanlegri virkjun í Mývatnssveit, líkamsárás í Þorlákshöfn, hugmyndum um kafbát í Eyjafirði, stjórnarslitum í Færeyjum og svona mætti lengi telja. Svo kom frétt um Breiðholtsdaga. Þeir eru nú haldnir í 6. sinn. Og þá allt í einu birtist texti á skjánum um leið og þulur las, rétt eins og þyrfti að þýða á íslensku það sem hann segði. Hvað var nú á seyði? Þetta hafði ekki gerst áður í þessum fréttatíma. Og skýringin kom í lok inngangs fréttaþular. Jú, heyrnarlaus myndlistarmaður sýnir verk sín á Breiðholtsdögum. Fréttastofa Ríkissjónvarpsins ákvað sem sagt að af því að heyrnarlaus maður er hluti af dagskrá Breiðholtsdaga þá skuli sú frétt textuð, svo heyrnarlausir geti nú horft á þá frétt og skilið um hvað sú frétt snýst.

 

Þessi verknaður fréttastofu Ríkissjónvarpsins lýsir að mínu viti botnlausri fyrirlitningu á heyrnarlausu fólki. Hvað er í raun verið að segja heyrnarlausu fólki? Jú, eitthvað á þessa leið: „Ykkur kemur lítt við hvernig heimsskútan vaggar og veltur frá degi til dags, en af því að í þessari frétt er fjallað um einn af ykkur, þá skulum við texta hana svo þið getið nú fylgst með ykkar fólki.“ Annað í þessum fréttatíma kom heyrnarlausu fólki ekki við, enda var ekkert fjallað um heyrnarlaust fólk í öðrum fréttum kvöldsins.

Það verður gleðilegur dagur í lífi heyrnarlauss fólks þegar stjórnendur Ríkissjónvarpsins uppgötva að heyrnarlaust fólk er upp til hópa jafn vel gefið og annað fólk og þegar þeir uppgötva að heyrnarlaust fólk hefur jafnmikinn áhuga á samfélagi sínu og annað fólk. Vegna þess að þá hætta þessir stjórnendur kannski að texta bara fréttir af Breiðholtsdögum og gefa þessum Íslendingum kost á að fylgjast með öllum fréttum í sjónvarpi allrar þjóðarinnar (ekki bara hinna heyrandi).  

Höfundur er faðir heyrnarlauss manns sem hefur áhuga á samfélagi sínu.

Þessi grein mín birtist í Morgunblaðinu 18. september.

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Þessi umræða fór fyrst fram í mín eyru ári áður en Keikó kom til landsins. Við leit á vefsíðu minni ( http://malbein.net/index.php?s=heyrnarlausir) má finna útreikninga á kostnaði við skjátextun fréttatímans allan ársins hring. Ég hef alltaf fullyrt að þetta sé miklu einfaldara en menn á RÚV hafa hingað haldið fram.

Gísli Ásgeirsson (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 15:15

2 Smámynd: Jóhann Hlíðar Harðarson

Þakka þér fyrir þessa ábendingu Gísli. Það er rétt að umræðan er ævagömul. Félag heyrnarlausra hélt m.a.s. málþing um efnið á Grand Hóteli fyrir mörgum árum. Engu að síður taldi ég rétt að benda á þessa fásinnu og forneskju í þeirri barnalegu trú minni að dropinn holi steininn. Hér á landi gerist ekki neitt þrátt fyrir að tækninni fleygi hratt fram og nágrannaríki okkar eru fyrir lifandis löngu farin að bjóða upp á textaða fréttatíma (í gegnum textavarpið). Hér á landi gerist hins vegar ekki nokkur skapaður hlutur nema þegar "heyrnarleysi" er hluti af fréttinni. Þá er rokið upp til handa og fóta og fréttin textuð. Þetta er náttúrlega virðingarleysi af verstu gerð.

Jóhann Hlíðar Harðarson, 18.9.2008 kl. 15:26

3 identicon

Fín grein. Ég mótmælti þessu vinnulagi alltaf þegar ég kom nærri þessu. Ég kann ekki varanlega lausn á þessu og textun á öllum fréttatímanum er ekki raunhæf að mínu mati. E.t.v. kæmi til greina að þeir yrðu textaðir eins fljótt og auðið er og settir á netið í hámarksgæðum. Mér finnst hræsni í því að texta aðeins fréttir þar sem heyrnarlausir koma við sögu, en það er um leið, á sorglegan hátt,  áminning til hinna heyrandi um hvað heyrnarleysi getur takmarkað möguleika fólks til að fylgjast með ljósvakaumfjöllun.

Finnur Beck (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jóhann Hlíðar Harðarson

Höfundur

Jóhann Hlíðar Harðarson
Jóhann Hlíðar Harðarson
Höfundur hefur áhuga á öllu og engu og gæti leikandi gengist við nafninu kverúlant, þó hann sætti sig frekar við að vera samfélagsrýnir.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband